Opnun vefsíðunnar www.cecil.is
20. júní 2024
Kæra fjölskylda, vinir, ættmenni og sveitungar. Það er með einstakri ánægju og stolti að ég tilkynni opnun vefsíðu minnar wwww.cecil.is. Þetta er lengi búið að vera mitt hugarfóstur og áhugamál. Ég tel mig einstaklega heppinn að fá að vinna að þessu verkefni. Það er von mín að sem flestir geti nú notið sögu og náttúrufegurðar Búða undir Kirkjufelli. Yfir 20 sögupóstar eru staðsettir víðsvegar um Búðalandið, með QR káða sem vísa inn á vefsíðuna. Þeir tengja saman kennileiti og fróðleik.
Ég gerði Grundarfjarðarvita upp á árunum 2020-2023.
Fyrsta sumarið skiptum við um hurð og glugga og valinn var harðviður í það, vonandi til að endast næstu 100 árin. Völundarsmiðurinn Lárus Sverrisson í Gröf var mín stoð og stytta í þessari vinnu. Auk þess að vera frændi minn þá er hann mér ákaflega góður vinur. Ég mun ætíð minnast samverunnar með Lalla á Búðum við endurgerð vitans með hlýju.
Allt byggingarefni, vinnupalla, rafstöð, verkfæri, matföng og eldunartæki þurfti að flytja, annaðhvort á fjörunni með buggy bíl og kerru yfir torfært land, eða að farið var á bát mínum Cecil. Það kom fyrir að mjög erfitt var í sjóinn, en heilir komum við ætíð heim. Þetta minnti tvímælalaust á þann tíma er vitinn var byggður, þar sem allt efni var flutt með vitaskipinu Hermóði og efnið ýmist borið á höndum eða ferjað með hestum. Sumarið 2023 setti ég upp sólarsellur og netbúnað í vitanum. Gamli gaslampinn í vitanum fór svo aftur á sinn verðuga stall í sumarlok og vitinn var málaður að innan.
Ég vil af öllu hjarta þakka Lalla vini mínum fyrir hans góðu verk og vináttuna.
Fyrir 1 ½ ári byrjaði ég að gera vefsíðuna www.cecil.is , með liðsinni góðs vinar, grafíska hönnuðarins Alfreðs Ingvars A. Péturssonar og er ég ákaflega ánægður með hans alúðarvinnu. Hann gerði einnig fyrir mig einkennismerki (logo), sem og merkingarnar á alla 21 sögupóstana sem staðsettir eru víðs vegar um jörðina.
Ég vil þakka Alla innilega fyrir hans hlut í þessu skemmtilega verkefni, sem hann hefur haft svo mikinn áhuga á, sem og fyrir vináttuna.
Foreldrar mínir voru ætíð mjög áhugasamir um verkefni mitt og endurgerð vitans og fylgdust vel með. Gefin var skýrsla heima á Hrannarstíg 12 eftir hvern vinnudag og sýndar myndir. Gaman er að segja frá því að um mánaðarmótin júlí-ágúst 2022 þegar ég kom frá Búðum til foreldra minna að loknum vinnudegi, þá var búið að baka vöfflur, eins og mamma gerði alltaf eftir fiskiróður hjá okkur pabba. Núna var tilefnið ekki veiðiferð, heldur sagði pabbi að tilefnið væri að þennan dag voru slétt 80 ár síðan byggingu vitans lauk. Það vildi einnig svo vel til að við Lalli vorum að klára síðasta frágang á klæðningu vitans, svo að nú var einungis eftir að taka hann í gegn að innan, sem ég gerði síðasta sumar.
Takk elsku pabbi og mamma fyrir að fylgjast svona vel með og takk fyrir öll ráðin og fróðleikinn. Það er einstakt hversu vel þið munið allt og hafið miðlað svo miklu til mín. Það er mikið lán að eiga fyrir bestu vini föður sem nú er 92 ára og móður sem nú er 88 ára.
Nú er svo komið að allir sögupóstarnir 21 eru komnir á sína staði og fljótlega fer vefmyndavélin utan á vitann. Síðar í sumar verður tekin falleg drónamynd af Búðalandinu. Hlekkir eru á síðunni til að skoða drónamyndbandið, vefmyndavélina og tónlistarmyndbönd yndislegrar dóttur minnar,Ingunnar Huldar Sævarsdóttur. Eitt lagið, Hetjudáðir, fjallar um og er tileinkað langömmu hennar, Kristínu Runólfsdóttur frá Búðum, sem var einstök kona. Annað lagið og tónlistarmyndbandið "Splendid" er fallegt og listrænt og skartar fallegum myndskeiðum af siglingu á bátnum Nonna, með afa hennar Pál Cecilsson í aukahlutverki.
Fyrir skemmstu tók ég inn á síðuna dýrmætan fróðleik um gömlu fiskimiðin og myndir með örnefnum, sem áður voru á www.gaiella.is. Kær vinur minn Gaui Ella, sem féll frá fyrir nokkrum árum hélt úti vefsíðu með ýmsum fróðleik og er ég þakklátur fyrir að fá að nota þessi gögn. Kann ég syni hans Kristjáni bestu þakkir fyrir.
Vefsíðan er einnig á ensku.
Sævar Pálsson.