Grundarfjarðarviti (Hnausaviti)

Um aldamótin 1900 var lítið um leiðarmerki við strendur landsins, en upp úr því var farið að byggja vita á annes og eyjar. Krossnesviti var byggður árið 1926, en þá var liðin nær hálf öld frá því að fyrsti vitinn kom á Reykjanesi. Grundarfjarðarviti var byggður 1942 og fyrst kveikt á honum í september 1943.

Ekkert innsiglingaljós var í mynni Grundarfjarðar fram að þeim tíma, enda var það kærkomið ljós í skammdeginu fyrir sjófarendur. Í dimmviðri og vonskuveðrum vantaði þó mikið á að ljósið frá vitanum sæist þegar komið var upp á miðjan fjörðinn. Þegar ég man fyrst eftir, á árunum fyrir 1943, áður en kveikt var á vitanum á Hnausum, setti móðir mín alltaf gaslampa út í glugga í Búðahúsinu þegar vont var veður og vitað var að vertíðarbátarnir voru ekki komnir að landi.

Lampar þessir, voru nýkomnir á markað hér, og nefndir voru Aladin, gáfu frá sér mjög gott ljós. Sjómenn sögðu að þetta ljós hafi oft sést vel þegar komið var fyrir Búðatangann, í norðan hríð eða sunnan stormi. Þessir litlu vertíðarbátar, sem voru innan við 20 tonn að stærð, tækjalausir og ganglitlir, hjuggu öldurnar um 100 metra frá landi upp með klöppunum á Búðum, en húsið stóð 10 metra frá sjávarbakkanum. Nú voru sjómenn og ráðamenn farnir að benda á nauðsyn þess að byggður yrði viti fyrir innfjörðinn, en á þessum árum var farinn að myndast byggðarkjarni í botni fjarðarins. En á áliðnu sumri 1942, kom vitaskipið Hermóður til Grundarfjarðar og lagðist fyrir akkeri utan við hleinarnar á Búðum. Tilurð ferðar hans var að koma með vinnuflokk og byggingarefni til vitabyggingar á Hnausum.

Hnausar eru grjót- og jarðvegshryggur, sem fyrir árhundruðum mun hafa losnað úr norðaustanverðu Kirkjufelli og hrunið þarna til sjávar. Í Hnausum var búið fyrr á árum og má víða finna þar bæjarrústir. Síðasti ábúandinn í Hnausum flutti þaðan um aldamótin 1900.   Vinnuflokkurinn var skipaður að mig minnir fjórum eða fimm úrvals mönnum, auk byggingarmeistarans Sigurðar Péturssonar. En hann sá um og byggði flesta þá vita sem byggðir voru á eyjum og annesjum á árunum 1935 til 1958.             

‍Að morgni fyrsta dagsins var hafist handa við að flytja byggingarefnið í land á skipsbátnum og bera það upp frá sjó og var því lokið þegar á daginn leið. Morguninn eftir var farið í að reisa svefnskála á sjávarbakkanum, sem var hið snyrtilegasta hús. Þar réði svo ríkjum Helga dóttir Sigurðar, kraftmikil ung  stúlka, en hún sá um matreiðslu fyrir vinnuflokkinn. Þarna var á ferðinni úrvals lið sem vant var að vinna við erfiðar aðstæður. Þegar lokið var við byggingu skálans, var hafist handa við að koma öllu efninu á byggingarstað, en það þurftu menn að bera yfir kargaþýfi og vegleysu,  um það bil tvo km. Þegar þeim áfanga var lokið, var tekið til við að grafa fyrir sökklum, með haka og skóflu, að sjálfsögðu. Nú þurfti að flytja möl og sand í steypuna, en því efni var mokað í poka niðri í fjöru og flutt á sama hátt og annað efni upp á Hnausa. Til að létta aðeins á mönnum við efnisburðinn, var samið við bónda á næsta bæ, sem kom með tvo reiðingshesta, en þeir gátu borið á við sex menn og flýtti það mjög fyrir. Smíða þurfti pall til að hræra steypuna á, því að engin var hrærivélin, frekar en önnur vélknúin tæki, sem þessi tími bauð upp á. Ég fylgdist lítið með daglegri vinnu þessara manna við bygginguna, enda bara tíu ára. Þeim mun oftar kom ég í skálann til Helgu, sem tók mér eins og væri ég litli bróðir og gaukaði að mér ýmsu góðgæti. Ég hugsa oft með þakklæti og hlýju til þessa fólks og veru þeirra á Búðum, enda fannst mér að lengri tíma hefði mátt taka að byggja vitan en raunin var. Þegar kom að lokadeginum og leiðir skildu með mér og þessu yndislega fólki og það hélt heim á leið, færðu þau mér ýmsar góðar gjafir, sem tíu ára drengnum þótti mjög vænt um.

Sérstaklega man ég eftir forláta vasaljósi og fjöldanum öllum af rafhlöðum sem dugðu mér allan næsta vetur. En þótt ég væri myrkfælinn í þá daga, fannst mér aldrei vera nógu dimmt á kvöldin, því ljósið fældi alla drauga frá hvert sem ég fór. Árið eftir var settur gaslampi í vitann. Mig minnir að það hafi verið Sigurjón Eiríksson tæknimaður og vitaeftirlitsmaður sem það gerði. Það var gaman að fylgjast með því þegar vitaskipið Hermóður sigldi um fjörðinn og mældi dýpið við boða og sker, en tæknimaðurinn var inni í vitanum og fínstillti ljósmerkin frá vitanum. Til samskipta milli skips og lands voru notuð ljósmerki með morsi frá ljóskastara skipsins og sterkum rafhlöðulampa í vitanum. Önnur senditæki voru ekki fyrir hendi. Að lokinni þessari tæknivinnu var formlega kveikt á Grundarfjarðarvita, en það var í september 1943. Vitavörslu annaðist bróðir minn Guðbjartur Cecilsson á meðan honum entist aldur til, eða frá árinu 1943 til 1994. Ég tók síðan við vitavörslunni eftir fráfall bróður míns. Næstu árin eftir að vitinn var byggður, kom vitaskipið einu sinni á ári með fullhlaðin gashylki og tóku til baka þau sem voru tóm. Þessi hylki voru sérstaklega þykk og þung, enda gerð til að þola  högg utan í kletta við misjafnar aðstæður. Það var oft mikið puð að draga hylkin frá sjó og upp í vita. Á seinni árum kom vitaskipið með gashylkin að bryggju í Grundarfirði og voru þau síðan flutt á dráttarvél áleiðis að vitanum. Svo voru hylkin dregin upp í vitann.

Grundarfjarðarvitinn er steinsteyptur. Hæð frá grunni er 3 metrar. Breidd 2 metrar, lengd 4 metrar og þakplatan er steinsteypt. Úthliðar vitans mynduðu sex láréttar rendur. Sökkullinn og tvær innfelldar rendur, voru húðaðar með hrafntinnu, en hinar þrjár voru húðaðar með ljósu kvarsi. Grundarfjarðarviti var eins og aðrir vitar á landinu í eigu ríkisins, undir stjórn vitamálastjóra. Hann var afhentur Grundfirðingum til eignar og reksturs 1.september 1983. Slökkt var á vitanum um aldamótin 2000 og fór hann í einkaeign 20. apríl 2001. Ljóskerið fór í varðveislu fram að því að sonur minn Sævar lauk endurbyggingu vitans í upprunalegt útlit árið 2023 og er ljóskerið nú komið á sinn stað í vitanum.

Tæknilýsing á vitanum skv. Vitamálastofnun:

Staður: 64°56´50“ n.br.  23°18´08“ v.lg.
Ljóseinkenni: hvítt, rautt og grænt leiftur á 5 sek. bili. L=0,5 sek. + m 4,5 sek.
Ljóshæð 24m.
Ljósmagn: t/e: Hv=286 ; Rau=71 ; Græ=57cdSjónarlengdoptísk: Hv=8,1cm ; Rau=5,5cm ; Græ=5,2cm  T=0,8  
Sjónarlengd geometrísk: 15cm
Vitabygging: 3m hátt steinsteypt hús, með hvítum kvarsröndum og svörtum hrafntinnuröndum.
Byggingarár:1942-1943. Kveikt á vitanum í september 1943.
Ljósakróna: Dioptrísk 375mm
Ljóstæki (lampi): K130 nr.B1690 frá Beacon Works Lighthouse Engineers, Brentford, England
Brennari: 1stk AGA 25 ltr.
Gashylki: 4ra gashylkja stæða. Ársnotkun 3 gashylki.
Mislitt gler í 5-strendum framglugga: 2 stk rauð 38x37,5cm, 2 stk græn 38x37,5cm
Ljóshorn:
Rautt fr. S 143°
Hvítt 143°-146° milli Mávahnúksboða og Vesturboða
Grænt 146°-186° yfir Vesturboða og Melrakkaey
Hvítt 186°-191° milli Melrakkaeyjar og Flankaskers
Rautt 191°-251° yfir Flankasker að Setbergi
Hvítt 251°-326° yfir leguna á Grundarfirði
Grænt  L.V.326°

Grundarfjarðarviti. Gerður upp í upprunalegri mynd 2023.
Gráðubogi sem sýnir vörpun ljósgeisla undir ákveðnu horni í gegnum mislitt gler.
Lampinn varpaði geislum í gegnum mislit gler í fimmstrendum gluggum.
Grundarfjarðarviti í upprunalegri mynd.