Til heiðurs minningu Gaua Ella.

Árum saman nutu mörg okkar vefsíðunnar www.gauiella.is. Kær vinur minn Guðjón Elísson gerði og rak þessa vefsíðu okkur hinum til fróðleiks og skemmtunar. Gaui lést langt fyrir aldur fram og er hans mikið saknað. Af gefnu tilefni langar mig að halda minningu hans á lofti um ókomna tíð.
Guð blessi minningu Gaua Ella. Ég fór fyrir nokkru síðan að grennslast fyrir um tilveru gagnanna ómetanlegu á gömlu vefsíðu Gaua. Fyrir skemmstu hafði ég samband við son hans Kristján, sem tók mér einstaklega vel, sendi gögnin um hæl og gaf mér fullt leyfi til að nota þau að vild. Skömmu eftir þetta ánægjulega samtal okkar Kristjáns sendi hann mér þakkarbréf fyrir að hafa sýnt þessu áhuga og ætla að koma þessum ómetanlega fróðleik í örugga varðveislu. Þetta þótti mér ákaflega vænt um. Nú eru Örnefnasíðan og síðan um Fiskimiðin komin í örugga höfn. Draumur minn er að ná að auðkenna fiskimiðin á ítarlegri hátt.

Sævar Pálsson.
Á þessari síðu er að finna fiskimið út af Grundarfirði, sem okkur Ómari bró! tókst að bjarga frá glötun með því að skrifa niður eftir gömlum sjómönnum áður en þeir yfirgáfu okkur og héldu út á hin eilífu fiskimið. Allmörg þessara miða hér fyrir neðan eru með tengil yfir á skýringarmynd á korti og er það fengið upp með því að smella á nafn fiskimiðsins. Neðst á síðunni er svo að finna söguna um hvernig skráning miðanna hófst.

Á miðslæðinu

Tungubær

Lögn fyrir framan Höfða. Tungubær yfir Mávahlíðarhellu og tekið til eftir Stekkjasteini undan sætrum að austanverðu og lagt austur undan Tungubæ. 6 færi.

Gvendar Jó-mid
Langt er út í lúðumið.
Lá þar falinn bátur.
Tryssukot í Laugu-Lág
Og Laxa-Jón í Látur.

Grunn-Holuhraun

Tekið til þegar grynnir upp úr Holu á 100m. og lagt í landið eftir holudyrum rétt opnum.

Holuhraun

Fyrir austan Holu alveg fram að brún, tekið til þegar dýpkar aftur suður þegar Hádegishnúkur er fastur við Stöð. (látið hylla í hnúkinn á austurfalli, en hafður laus á vesturfalli) lagt í landið.

Steindórsflaga

Eftir Háf og Stöng í Grundarfoss.  Lagt í landið.  Lúðumið.

Ásbjarnarmið

Eftir Ófærugili við vestur horn á Stöð og Eyrarstrák í öxlina á Bjarnarhafnarfjalli.  Eða eftir Girðing fyrir ofan Bugsmúla, eða Krossnesbæinn við Múlahornið og Holtsbæinn við Mávahlíðarhelluna.  Krossaskaflinn er aðeins vestan við gilið í Ásbjarnamiðinu.  (Fiski og lúðumið).  Haukalóð lögð í landið eftir Gilinu.

Boðar

Þrælaboði

Holtsbærinn við Mávahlíðarhelluna og Höfðakotsbærinn við sætruna.

Vallarbæjarboði

Vallabærinn við sætrin og Víkurbærinn við endann á háu bökkunum í Vík (við Hópið).

Mávahnúksboðinn

Mávahnúkurinn í Staðarnefið að vestan og hnakki á Háskerðingi við brekkuendann.

BolliNaustálsbær og Bárartröð
bendast á við skolla.
Lítið stykki af Lágu Stöð.
Er leiðin fyrir Bolla.

Á Lágu-Stöð í vestur eyjarendann er Bolli sjálfur.

Í sundinu og við eyjuna

Melrakkaey

Lúðulögn. 
Tekið til við eyjarhornið þegar suður eyjarendinn er í Búðabæinn og lagt austur og fram.

Fiskimið. 
Bærinn í norður Bár í suður-eyjarendann og fellakollur við Hnausa.

Fiskimið. 
Skriðan í Fellinu í Bjargið og Arnarhóll í Brimbrekkuna á eynni.

Fiskimið. 
Arnarhóll í norður eyjarendann og Búðarholtið við Bjargið.

Fiskimið.
Gilfossinn í Suður-Eyjarendann og skriðu í Felli í Bjarg.

Álaþúfa

Álaþúfan í Stöð og Arnarhóll í suður eyjarendann.

Í Vikinu

Stórhóll (í Lárdal) í suður eyjarendann og eftir skipsþúfu.  Lagt á Vatnabúðir.  (Haukalóð).

Jakobsblettur

Smá hola 17 fm. Framan við eyjarrifið eftir grænum bletti norðan í Klakknum sem ber í Byrgið (norður enda.)

Gunnu Björns-mið

Stóru urðir í Mýrarhyrnu við Helluna og Skarðsklettur við Kirkjufellið. (Fastur við á liggjanda 62-68 fm). Smá hóll lagt annaðhvort í suður eða norður til að hitta á hólinn.

Lágahnúksflaga

Stóru urðir í Mýrarhyrnu við Helluna og Skarðsklettur við Kirkjufellið. (Fastur við á liggjanda 62-68 fm). Smá hóll lagt annaðhvort í suður eða norður til að hitta á hólinn.

Krossnesflaga

Eftir Krossneshúsinu gamla vestan við bjargið og hólana á eynni í Þórdísstaðabæinn. (Lúðumið).

Eftir Randarsteini í Sandvík

Tekið til á ennishömrunum og lagt eftir steininum í fellsrönd (steinninn er á múlanum).  Lúðumið.

Eftir Oddunum

Höfðakúla vestan við stöðina, tekið til vestan til við Eyjuna og lagt á Spjör.

Austurmið

Hermannsgjafi

Er á milli Hempils og Selskers.  Guðmundur Guðmundsson eldri fékk oft stórlúðu austan við Hempil.  (Hempill:  Eyrarhyrna í Vestur-Gjafa og Helgafell í skarðið á Háskerðing.  Lagt lausan Gjafa 4-6f).

Við Kópaflögur

Boði fyrir suðvestan Flögurnar (mjótt sund) Suður-mið.  Hrafnfoss við Eyrarhyrnuna, aðeins undan.  (Lagt með boðanum að vestri 4-6f.  Dýpi ca. 10-15fm).

Múlaá

Eyrarhyrna í Múlalá í Kolgrafamúla í landið.

?

Höskuldsey í Háskerðing og Selsker í Búðabæ og lagt undan Búðabæ.

Sigmundarbrún

(Fiskimið)  Eyrarhyrna í vestari Gjafa og Helgafell í Höskuldsey (selsker í Mön).

Suður af Felladýpinu

Austurbrún á Stöð og Vesturrönd á Hyrnu og Sandhólskollurinn undan Bjarnarhafnarfjalli.  Lagt á Stöð.

Hafrafellsbrún

(Suðurmið)  Eyrarhyrna í Leiðarhnúk og Selsker í Bugsmúla.  (Þá áttu að vera í brúninni, en síðan má keyra eftir því austur á Hafrafellstinda).

Stjóralega

Litli Berserkur vestan við Bjarnarhafnarfjall og Korri í Stól.  (Lúðumið lagt í landið á Berserk).  (Fiskimið eftir stóra Berserk og lagt fram í álinn).

Heimsendaflaga

Eftir Þorsteinskeyp og Mávahnúkskolli:  Tekið til á 40fm. og lagt fram.

Kúlubrot

Röndin aðeins laus og fyrsta kúla undan Bjarnarhafnarfjalli og Grundarfossinn í Birgið á eynni.  Þá er farið yfir Steindórsflugu og fram í Kúlubrotsálinn.

Brekinn

Helgafell í Háskerðing og Hornið undan (vestast?).  Sandarnir undan.

Steinbogi

Steinbogi við Eyrarfjall og Helgafell á Háfjallinum (Háskerðing).  Lagt fram og lausan Hornskoll og Steinbogi gengur undir.

Gunnlaugsmið

Kistufell uppi á Stöð og tekið til  lausan Hornskollinn og Steinbogi gengur undir, stefna á sker.

Slóðin

Selsker í Grundarmön og Helgafell í Akureyjar 30-40fm.  Þar er állinn 60fm.

Hempill

Helgafell í Háskerðing, Hirnukollur í Múlalág.

Í Álnum

Böðvarsgil

Eftir Matarfelli og Nasa.

Á Horninu

Austurrendur á Stöð og Hyrnu og Hornið við Suðurenda á Bjarnarhafnarfjalli.  Lagt fram annað hvort eftir rönd eða horni.

Þokumið

(El Dorado)  Eftir Holudyrum og neðra haki í Matarfelli í Nasabrún.

Eftir Háf og Holusteini

Tekið til á fullu dýpi og lagt fram.Tekið er til með Háf blindan undir Eyrarfjalli og lagt fram. (Háfurinn kemur undan). Lagt eftir Holusteini, sem er steinn austan í Stöð sem ber í vesturjaðar á Kirkjufelli. þá eru holudyr lokaðar.

Árnaflaga

Austur og dýpra af Bárðargrunni.  Vesturjaðar á Felli ber í þrjár hnúfur á Stöð og Strákur í fremri öxl á Bjarnarhafnarfjalli.  (Fiski og lúðumið).

Dýpra af Árnaflögu

Lagt eftir hakinu í Stöð.  Tekið til þegar byrjar að grynnka aftur á næsta hrygg fram úr Árnaflögu.  (Lagt í austurfalls-upptöku).

Sagan af því hvernig skráning okkar á gömlu miðunum hófst.

Flest okkar sem horfum út á hafið, sjáum við fyrir okkur stóran jafnan og tilbreytingarlausan flöt, sem allsstaðar virðist vera eins.  Eins var með mig, þegar ég tólf ára gamall fór að róa með þeim afa mínum  Pétri Konn og og bróður mínum Ómari á Svölu SH 178. Fljótlega lærði ég þó, að þótt báturinn væri stöðvaður á einhverjum tilteknum stað og færum rennt til botns, þá hélst dýpið ekki alltaf það sama og eftir tilsögn afa sá ég að afstaða fjalla og tinda og gilja og kletta í landi hvers til annars var sífellt að breytast. Þetta voru mín fyrstu kynni af staðarákvörðunum á hafi úti og vorum við mjög háðir því hvort það sást til lands eða ekki. Við höfðum ekki annað en kennileiti í landi og dýptarmæli til þess að vita hvar við vorum staddir.  Núna þrjátíu árum síðar þarf ég oftast ekki annað en að líta á fjallahringinn til þess að vita nokkurn vegin hversu djúpt er undir og yfirleitt hvernig landslagið lítur út djúpt undir bátnum, hvort undir er grjót, hraun, sandur, leir eða drulla, þótt nýjasta tækni geri okkur kleift að sjá þetta allt saman á tölvuskjá.

Þegar svo afi okkar hætti til sjós, héldum við Ómar áfram í sumarfríum okkar. Vorum við 13 og 15 ára gamlir og á besta aldri til að læra og ákafir í að viða að okkur fróðleik, sérstaklega varðandi hvar helst væri fisk að finna og gerðumst mjög spurulir við gamla fiskimenn.  

Eftir að Svalan skemmdist við bryggju og sökk, fórum við að vinna í landi og sinntum þessu ekki um árabil.

Það var ekki fyrr en 1986, sem við Ægir Már yngsti bróðir minn keyptum saman trilluna Má SH 71 sem var þriggja tonna trébátur (Seinna Bára SH sem gerð var út á leikskólalóðinni) að við fórum að rifja upp þessi gömlu mið. Kom þá Ómar af miklum áhuga til aðstoðar og fór jafnvel í nokkra róðra með okkur til upprifjunar. Þá gerðist það eitt sinn er við fórum að leggja haukalóð eftir tilsögn Ómars, að eftir þetta langan tíma var hann farinn að rugla aðeins saman kennileytum og í staðinn fyrir að leggja eftir Háf og Holusteini lögðum við eftir Þúfunni og holusteini. Árangurinn var mjög góður og fengum við fjórar stórflyðrur í þessu fyrsta kasti og margar síðar, því þetta varð eitt af okkar uppáhaldsmiðum og heitir nú Ómarsháfur.  

Við fórum upp úr þessu að skrá niður allt sem við höfðum upp úr afa og pabba og reyna að pumpa fleiri. Ómar fór í nokkrar heimsóknir til gsmalla fiskimanna með stílabók í hönd og hafði upp úr þeim ómældan fróðleik. Þessir gömlu menn voru sumir tregir til að láta af hendi þessi gömlu atvinnuleyndarmál, en gerðu sér þó grein fyrir að þetta voru mikil verðmæti sem fólust í vitneskju sem þeir voru við það að fara með í gröfina og reyndust orð að sönnu, því flestir eru látnir nú og einn þeirra lést aðeins einni viku eftir heimsókn Ómars.  

Eftir að Eyrbyggjar hollvinafélag Grundarfjarðar fór þess á leit við okkur að fá að birta þessi gömlu landmið ræddi ég málin við Ómar, og ákváðum við að úr því að við vorum svo lánsamir að bjarga þessari dýrmætu vitneskju frá glötun væri það skylda okkar að sjá til þess að hún glataðist ekki í framtíðinni, því ekki verðum við eilífir frekar en aðrir.  

Í mínum augum hafa flestir staðir á hafsbotni í okkar nágrenni sín heiti líkt og staðir á þurru landi og í von um að,  þrátt fyrir að flestir skipstjórar í dag nefna allar staðarákvarðanir í löngum runum af tölustöfum, þá vil ég leggja mitt af mörkum til að gömlu nöfnin gleymist ekki.

Guðjón Elisson.

Gaui Ella

Velkomin á örnefnasíðuna

Texti

Texti
Texti
Texti
Texti