Fjölskyldan á Búðum

Hafið gefur og hafið tekur.

Áður en foreldrar mínir keyptu Búðir voru þetta 2 jarðir, Hnausar og Búðir. Árið 1920 fluttust foreldrar mínir Cecil Sigurbjarnarson, fæddur á Setbergi við Grundarfjörð og Oddfríður Kristín Runólfsdóttir, fædd að Fjarðarhorni við Hraunsfjörð, að Búðum undir Kirkjufelli. Þau höfðu þá fest kaup á jörðinni. Með þeim fluttu einnig móðurbróðir minn Þorkell Runólfsson og kona hans Margrét Gísladóttir. Þau fluttu í hús á fallegum stað við sjóinn. Þetta var ekki stórt hús á nútíma mælikvarða, en það var 48m2, með kjallara. Þegar flest var bjuggu í húsinu 16 manns. Um tíma bjuggu hjá okkur afi minn og amma, Sigurbjörn Helgason og Soffía Jónasdóttir. Mamma tók einnig að sér unglingspilt sem hét Hallgrímur Pétursson Jóhannsson (skírður Hallgrímur Pétursson).

Húsið var úr timbri og eitthvað af því einangrað með heyi. Hæðin var þannig skipulögð að forstofan kom í V og þil var eftir húsinu endilöngu. Úr forstofunni var síðan hurð inn í sitthvora álmuna. Fjölskylda mín bjó í annarri álmunni og fjölskylda móðurbróður míns í hinni. Úr anddyrinu var gengið inn í baðstofu og eldhús, en innan við það var lítið herbergi, sem öll fjölskyldan svaf í. Eldavél var í eldhúsinu og sá húsinu fyrir hita, en engin hitun var í herberginu. Annað rúmið í herberginu lá þvert yfir en hitt langsum. Pabbi og mamma sváfu í 2m rúmi, með eitt barn hjá sér, en hin börnin í 1,5m rúmi og síðan var vagga í herberginu fyrir það yngsta. Kýrnar í kjallaranum sáu fyrir smá hita upp í húsið.

Þegar svo frændfólk mitt, Þorkell, Margrét og börn þeirra fluttu inn í Grundarfjörð árið 1928, kom pabbi með kolaofn til að setja í húshlutann sem þau bjuggu í. Hann var gríðarlega stór og náði upp undir loft. Kveikt var upp í honum á kvöldin þegar kalt var úti og látið brenna upp í honum það sem í hann fór. Hann rauðhitnaði og hitaði vel upp. Við systkynin fæddumst öll að Búðum, Kristín 1921, Bæring 1923, Soffanías 1924, Guðbjartur 1927 og ég (Páll) 1932. Þorkell og Margrét eignuðust 5 af 6 sínum börnum að Búðum. Þetta voru þau Gísli, Fjóla, Runólfur, Lilja og Páll. Einhverju eftir 1937 var síðan byggð hlaða og fjárhús. Þegar því var lokið byggðu bræðurnir fjós til að hafa kýrnar í á sumrin og hrossin á veturna.

Pabbi átti bát í félagi við annan og reri til fiskjar frá Búðum og Kvíabryggjuósi. Hann reri á trillunni á vorin og sumrin, en á veturna fór hann á vertíðir. Þann 20. febrúar árið 1933 fórst hann með bátnum M/s Papey, en hann var sigldur niður af þýska flutningaskipinu Brigitte Sturm, við Engey út af Reykjavík. Ég varð því föðurlaus eins árs gamall og móðir mín ekkja með 5 börn.

Eftir að pabbi dó var lífið mjög erfitt og fátæktin mikil. Við vorum með 40-50 kindur, 2 kýr og hross. Kirkjufellið tók sinn toll, þar sem nokkrar kindur hröpuðu á hverju ári. Allt þetta var nýtt til matar, þó rollurnar væru eitthvað gormengaðar eftir fallið. Bræður mínir sóttu egg í Kirkjufellið og þau voru borðuð fersk í fyrstu. Einnig voru þau kafsöltuð í fötur og entust þau þá fram að slætti. Í ágúst þegar fuglsungarnir komu af fjalli veiddu bræður mínir máfsunga og fýlsunga. Fuglinn var fyrst borðaður ferskur, en síðan saltaður. Móðir okkar var ekki hrifin af veiðum á æðarkollu, en bræður mínir veiddu stundum örfáar til að eitthvað væri í matinn.

Ég man eftir því einn morguninn þegar lítið var til matar, að 2 höfrungar höfðu strandað í fjörunni við Gjána niður af bænum. Þetta dugði okkur í ansi margar máltíðir. Á afmælisdag Soffa bróður míns 3. Maí 1935 komu um morguninn 5 höfrungar æðandi á land í stórgrýtinu fyrir neðan bæinn. Þeir voru þónokkuð stórir. Soffi og Bæi voru fljótir að hugsa og bundu saman sporðana á þeim til að þeir slyppu ekki út. Þegar þeir voru að binda höfrungana, náði einn þeirra að losa sig og sló sporðinum í Soffa miðjan og þeytti honum nokkra metra. Soffa varð sem betur fer ekki meint af þessu. Ekki var til nægjanlega stór hnífur til hvalskurðarins, svo að sóttur var ljár heim á bæ. Margir sveitungar fengu að njóta þessa sannkallaða hvalreka. Kjötið var saltað og spikið brætt í stórum ullarpotti. Einhverju síðar ráku 32 grindhvalir á land á Búðasandinum og einhver hundruð lónuðu fyrir utan. Strax var látið vita af hvalrekanum og dreif fólk víða að á bátum til að reyna að reka vöðuna á land. Það gekk ekki sem skyldi. En bræður mínir drifu sig niður í fjöruna og skáru fangamark mömmu á alla hvalina sem strandaðir voru svo ekki færi á milli mála hver ætti þá. Fjöldamargir nutu hvalrekans og var kjötið selt víða.

Ekki var mikill tími til leikja, en vinna og mataröflun urðu að leik. Aðal leiksvæðið var fjaran og oft rak ýmsa kynjafiska á land. Við veiddum oft kola, gjarnan með heimagerðum skutli úr priki með uppréttan veiðikrók með agnhaldi á endanum.

Árið 1936 keyptu bræður mínir Bæi og Soffi sína fyrstu trillu, en hún fékk nafnið Óðinn og var 2,5 tonn. Þeir voru þá aðeins 12 og 13 ára. Einhverjum árum síðar seldu þeir Óðinn og keyptu bátinn Litla Baldur frá Stykkishólmi, en hann var einn fyrsti flutningabáturinn við Breiðafjörð. Aflinn var saltaður heima fyrir og síðan seldur í Stykkishólmi.

Talsverð mótekja var á Búðum, þó hann væri talsvert léttur og lélegur og enginn kolmór. Stundum var farið allt að 15 fet niður í jörðina, en þá hafði verið rutt nokkur fet niður. Það var mikil erfiðisvinna að koma mónum upp úr holunni.  Mórinn var stunginn í sundur og þurrkaður og var notaður bæði til eldamennsku og húshitunar. Greinilegt var að í fyrndinni hafði verið hér skógur, því við fundum allt að 10 tommu svera trjáfauska í jarðlögunum.
Til lýsingar var notuð steinolía á lampana, en 100 lítra steinolíutunna var látin duga fyrir árið. Í fjósið voru notaðir grútarlampar.

Fjölskyldan síðsumars 1932. Ég var þarna á 1. ári.
Séð heim á bæinn. Bæjarhúsið vinstra megin, svo fjárhúsin og hlaðan.
Við systkynin 1936, Kristín, Bæring, Soffanías, Guðbjartur og Páll.
Foreldrar mínir, Cecil Sigurbjarnarson og Oddfríður Kristín Runólfsdóttir.