Sögur
Draumur Bærings Cecilssonar frá 1946 og björgun úr sjávarháska. M/b Þorsteinn sóttur suður til Reykjavíkur:
Fór inn í Hraunsfjörð, gisti þar og var þar í fyrsta og síðasta sinn. Þegar ég var sofnaður þar, þá dreymdi mig að það var komin í herbergið til mín kona um fimmtugt, mjög myndarleg og lagleg, dökkhærð í meðallagi há. Hún segir við mig:„Þú drepur þig ef þú heldur áfram í þessa ferð“, en ég var á leið tilReykjavíkur til að verða vélstjóri á bát og koma honum til Grundarfjarðar, því hann var gerður þar út. Þessi skilaboð draumakonunnar voru ekki uppörvandi fyrir mig, en ég segi við konuna: „ Þér verður ekki kápan úr því klæðinu og ég drep mig ekki“. Þetta endurtók konan alla nóttina og um kl. 06 vaknaði ég og sé konuna ganga út úr herberginu. Hún skildi hurðina opna í hálfa gátt, en ég hafði lokað henni um kvöldið.
Þennan morgun fór ég með jeppa inn í Kerlingarskarð í veg fyrir rútu sem kom frá Stykkishólmi og fór til Reykjavíkur. Þegar ég kom suður, varð ég að bíða í 5 sólarhringa í bátnum vegna vestan hvassviðris. Þá dettur veðrið niður um miðnætti. Ég fór aftur í vél og setti hana í gang og lagt var af stað í logni, svo birti í lofti og varð heiðskírt, en það var ekki lengi. Um kl. 03 fór ég fram í bátinn og lagði mig í 2 tíma. Þegar ég gekk fram dekkið, þá komu 3 snjókorn á dekkið. Þegar ég leit til norðurs sá ég svartan vegg við sjóndeildarhringinn og var ég ekki búinn að vera 10 mín. í kojunni heyrði ég að það var farið að hvína í reiðanum. Það var komið norðan fárviðri og dimmt. Áfram var haldið þó að varla sæist fram á hnífil (efst á stefninu) og aðeins lítill kompás til að sigla eftir. Báturinn var aðeins 18 tonna með 6 manna áhöfn.
Síðan um kl. 8 um morguninn vorum við komnir í mjög krappan sjó sem stóð beint á stefnið, þá var beygt á stjórnborða til að fá betri gang á bátinn. Ég var staddur niðri í vélarúmi, sem oft skeði á þessari leið og ég var að hella úr smurkönnunni í smurkistuna, þegar kallað var á mig og sagt „kúplaðu ekki frá vélinni“. Ég sá engan og hélt áfram að hella á smurkistuna. Þegar ég var að enda við það, þá kallar önnur rödd á mig og segir „athugaðu kúplinguna“.Svo þegar ég kem upp úr mótorhúsinu þá bað ég skipsfélaga mína að kúpla ekki frá vélinni hvað sem á gengi og ef þyrfti að gera bátinn ferðlausan, að setja þá skrúfuna á skurð.
Áfram var haldið og komið á sléttan sjó sem þó var hvítrjúkandi. Það benti til þess að við værum komnir nálægt landi. Þá var lóðað með handlóði og við þá á 5 faðma dýpi og ekki sást til lands kl. 11, en þegar við vorum komnir á 3 faðma dýpi grilltum við í land og sáum við sand í landi. Var þá slegið af og akkeri sett út og 2 liðir af keðju. Töldum við þá að við gætum haft það gott og haft var samband við Reykjavíkurradíó til að láta vita um okkur og koma skilaboðum heim um að okkur liði vel og að við kæmum ekki heim fyrr en daginn eftir. Þá kallar bátur frá Ólafsvík í Reykjavíkurradíó og segir að það hefði verið að farast bátur út af rifjunum. Þeir sáu að bátur hafði stungið sér og sjór kom inn í hann. Sjór komst inn í hann og vélin stoppar. 6 menn ausa með stömpum upp úr lestinni, síðan fari vélin í gang og báturinn þá stungið sér aftur. Þá gekk él yfir og sáu þeir hann ekki meir, en þeir sögðust þekkja bátinn því hann hefði verið mörg ár í Ólafsvík. En við vorum líka 6 á bátnum sem lá í landvari undir jökli og væntanlega var það sami bátur óg Ólsarar sáu farast á rifi.
Á meðan þessu stóð stoppaði ég vélina og fór að rífa í sundur kúplinguna. Þar að kom að ekki hefði mátt kúpla frá því þá hefði vélin brotið kúplinguna, en ég lagfærði það. Raddirnar sögðu mér því að annars hefði farið illa.
Selveiðar með berum höndum við Koll:
Einn góðan sumardag komu Bæi og Soffi auga á sel á skerinu Kolli. Þá vorum við mamma okkar og systkyni mín heima við bæinn og fylgdumst með. Bæa og Soffa hafði komi saman
um að reyna að ná selnum. Þeir fóru á sundskýlum í átt að Kolli. Soffi fer landmegin við skerið og ætlar að ná athygli selsins á meðan Bæi veður út fyrir skerið. Selurinn horfir á Soffa og fylgist með honum. Þegar Bæi nálgast selinn aftan frá þá tekur selurinn eftir honum og tekur viðbragð út á sjóinn til að forða sér. Selurinn lendir á fótum Bæa, sem var með sívalt barefli. Snarlega rotar Bæi selinn. Reyndar var haft eftir Bæa síðar meir að hann hefði „rotað selinn með hnefanum“, en það var bara hluti af frásagnarlistinni að bæta aðeins í. Selveiðin var drjúg búbót. Skinnið af selnum var selt, en virði þess var talsvert í þá daga fyrir þá sem stunduðu selveiðar.
Kaupstaðarferð og sjávarháski:
Bræður mínir Soffi og Bæi fóru eitt sinn sem oftar á bát sínum Óðni í verslunarferð í Stykkishólm. Magnús bóndi í Kirkjufelli og Elsa dóttir hans fengu að fara með í kaupstað. Ætlun Magnúsar var að kaupa girðingastaura og sementspoka. Þegar komið var til baka úr ferðinni og komið var að klöppunum við Búðir var komið sunnanrok og brim. Holskefla kemur á bátinn, brotnar yfir hann og hálffyllti. Vélin stoppaði, en svona bensínvélar þoldu illa skvettur. Þeir voru með mastur og segl og hífðu upp seglið í hvelli.
Það var ausið af kappi úr bátnum. Báturinn var ekki hár á borðstokkinn. Þegar seglið náðist upp fer báturinn að sigla undan vindinum frá landi. Til bjargræðis var einhverju af sementspokunum hent frá borði til að létta bátinn. Kirkjufellsbóndinn var ekki mjög hress með það. Eftir stutta siglingu undan sunnanvindinum kemur mikil vindhviða og brimskafl fylgir á eftir. Kirkjufellsbóndinn segir: „Lækkið þið seglin, lækkið þið seglin“, en Bæi var fljótari til og hífði seglið í topp og þetta varð til að rífa bátinn upp úr brimskaflinum.
Þessi snöru og hárréttu viðbrögð hans björguðu örugglega lífi þeirra allra. Svo sigldu þeir undan vindi yfir fjörðinn í átt að Eyrarfjalli. Þegar þeir voru komnir fyrir framan Akurtraðir þá sáu þeir í land og þá kom Bæi vélinni í gang aftur og siglt var í land við Akurtraðir fyrir vélarafli. Runólfur afi kom til Búða til að láta vita að allir væru heilir á húfi. Síðan komu þeir daginn eftir heim til Búða. Seinna fengu þeir bræður sér aðra vél í bátinn, en það var norsk vél, af gerðinni Drott. Þetta var díselvél með glóðarhausa og mun gangtraustari.
Hvalveiðar með framhlaðningi og tolla:
Það var um 1910 að stórhveli hafði komið sér fyrir á Grundarfirðinum, en menn á bátunum óttuðust hann mjög þar sem hann átti til að elta bátana þegar þeir sigldu út fjörðinn. Sigurbjörn Helgason afi minn átti stóran framhlaðning sem hann hugðist nota til að skjóta hvalinn. Hann hlóð byssuna með hvellhettu og stórum púðurskammti. Þetta var fullkomnað með því að troða 6-8 tommu löngum og 12 sentimerta sverum tolla úr bát í hlaupið (tolli er járnsívalningur sem gekk niður í borðstokkin og á hann var árinni krækt).
Síðan lét afi róa með sig út á fjörðinn og stóð frammi í bátnum með mundaða byssuna og beið eftir hvalnum. Hvalurinn kom á mikilli ferð á móti bátnum. Afi stóð keikur frammi í og skaut á hvalinn. Með þessa gífurlegu hleðslu sló framhlaðningurinn svo mikið að afi þeyttist aftur í skut og lemstraðist talsvert. Hann var ófær til vinnu í 5 daga eftir þetta. Hvalurinn kafaði eftir skotið og ekkert spurðist til hans fyrr en á fjórða degi.
Hann fannst þá rekinn við bæinn Hamra innst í firðinum. Hvalreki var á þeim tíma einn mesti happafengur fólks. Afi taldi víst að þetta væri hvalurinn sem hann skaut, en engin sönnun fannst um það fyrst. Margir þustu að í hvalskurðinn, en þegar honum lauk, þá fannst tollinn í hjarta hvalsins. Þá sannaðist að Sigurbjörn afi hafði skotið hann og var mikið talað um þetta þrekvirki.