Náttúra

"Omnis vita ex mare" (Allt líf á uppruna sinn í sjónum).

Lífríki fjörunnar við Búðir er mjög fjölbreytt, þar sem allt að 6 metrum getur munað á flóði og fjöru í stórstreymi. Talsverðir beltisþaraskógar (sweet kombu, kombu royale) eru á grunnsævinu, ásamt mörgum öðrum þangtegundum.
Grænþörungar eru t.d. maríusvunta. Rauðþörungar eru t.d. söl og sjávarkræða. Brúnþörungar,sem eru algengastir eru t.d. beltisþari, hrossaþari (Kombu), blöðruþang, klóþang, dvergþang, þangskegg (oft kölluð sjávartruffla og er hún ásæta á klóþangi) og marinkjarni (Atlantic wakame), en mikið er af marinkjarna við Hnausana. Honum svipar að bragði nokkuð til sölva. Þetta eru allt matþörungar, nýtanlegir á mismunandi tímum ársins. Allar þessar tegundir er að finna í lífríki Búða.

Efst í fjörunni er að finna: dvergþang og purpurahimnu.
Við miðbik fjörunnar er að finna: þangskegg (sjávartrufflu), klóþang, purpurahimnu, söl og fjörugrös.
Neðst í fjörunni er að finna: hrossaþara, beltisþara og marinkjarna.

Til nánari fræðslu og upplýsinga um nytjar, geymsluaðferðir og matreiðslu matþörunga vil ég benda á þá ágætu bók „Íslenskir Matþörungar (Ofurfæða úr fjörunni)“. Sögur útgáfa 2020. Höfundar: Eydís Mary Jónsdóttir land- og umhverfisfræðingur, Hinrik Carl Eggertsson matreiðslumeistari, Silja Dögg Gunnarsdóttir sagnfræðingur og Karl Petersson ljósmyndari.
 
Grunnsævið og fjöruborðið, með mikinn sandbotn er uppeldissvæði fyrir ýmsar fiskitegundir. Sandfjörur við Ísland eru mjög mikilvæg uppeldissvæði fyrir flatfiska á fyrsta ári. Einnig eru líkur á því að svipuð búsvæði neðan fjörunnar séu þeim mikilvæg sem uppeldissvæði, eftir að ungfiskur leitar frá fjöru og út á meira dýpi.

Á hlýjum sumardögum er yndislegt að njóta lífsins í fjörunni og sjónum á Búðum. Sandurinn hitnar í sólinni og gefur smáyl í sjóinn við ströndina þegar fellur að. Þegar vaðið er berfætt í sjónum finnur maður oft eitthvað skjótast undir ylina og eru það gjarna kolaseiði eða lúðuseiði. Mjög auðvelt er við þessar aðstæður fyrir fullorðna að finna barnið í sér og detta í æskuleiki. Þegar fellur út myndast víða pollar í fjörunni sem geta verið fullir af lífi. Sprettfiskar (skerjasteinbítur), kola- og lúðuseiði, krabbar, ígulker og krossfiskar leynast þarna oft. Á klöppunum niður og vestur af Vopnalág eru pollar sem aldrei hverfa. Urmull er af hornsílum í þessum pollum. Þetta hefur í gegnum tíðina verið vinsælt af börnunum. Fullorðnir verða að gæta barnanna vel þarna, því að klöppin stendur eilítið hátt og er talsvert fall niður.  

Gjöful fiskimið eru í nálægð við Búðir og ekki þarf að fara langt til að komast í fiskveiði. Þetta er aðallega þorskur, ufsi, stöku ýsa og einnig kemur þarna bæði síld og makríll á ákveðnum árstímum. Í ósnum og stundum við ströndina gengur sjóbleikja, sem stundum var veidd áður fyrr. Mikið er um sandmaðk ofan í sandinum og áður fyrr var hann grafinn upp á 1 fets dýpi og var notaður í beitu. Einnig var kræklingur notaður í beitu.

Ýmsar aðrar skeljategundir finnast á Búðum, s.s. kúfskel, öðuskel, krókskel, gluggaskel, báruskel og sandskel (Soft-shell clam). Sandskelin heldur sig oft á um 1 fets dýpi undir yfirborði sandsins og talið er að talsvert sé af henni í sandsvæðunum á Búðum.  Jafnvel beitukóngur finnst í fjöru Búða, ásamt ýmsum smákuðungum. 

Fuglalífið er mjög fjölbreytt. Í ósnum á milli Búða og Kvíabryggju gætir margra tegunda og það er einstök upplifun að fylgjast með ósnum t.d. í maí þar sem fuglinn safnast oft fyrir í gríðarstórum hópum. Í ósnum má gjarna sjá æðarfugl, kríu, sendlinga, tjald, máfa, svartbak, fýl, skarf og aðra sjófugla. Einnig sést mikið af fugli mjög víða við strandlengjuna, s.s. við og á Búðatanganum, í Frönskuvík, í Karlsvík, við og utan klettanna út af rústum Búðabæjarins  og í Bjarkarvík.  Utar á sjónum á sumrum er talsvert um lunda, sem verpir í Melrakkaey og sækir í sand- og trönusíli til fæðuöflunar.
Þegar mikið er um sandsíli og trönusíli og jafnvel síld má oft sjá súluna steypa sér eins og örvaroddur eftir æti. Fuglinn sækir allur í sílið, ásamt því að hvalir sjást oft á firðinum þegar mikið æti er. Þetta er helst hnísa, höfrungar og hrefna. Sést hefur til hnúfubaka einnig. Svo láta háhyrningar oft sjá sig á firðinum. Í Kirkjufellinu verpir máfur, svartbakur og fýll. Niður í móanum er talsvert af mófuglum á sumrum. Oft má sjá í Búðalandinu og uppi í Kirkjufellinu stöku örn, en geldfuglar sem flakka um venja þangað komur sínar á vetrum og um vor. Aðalfæða arnarins er æðarkolla.

Áður en lögin um stjórnun fiskveiða komu til höfðu sjávarjarðir rétt til veiða og sjávarnytja. Samtök eigenda sjávarjarða (www.ses.is) hafa staðið fyrir málarekstri fyrir félagsmenn sína, eigendur sjávarjarða, til að endurheimta þennan sjálfsagða rétt, sem tekinn var af þeim í einum vettvangi. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur úrskurðað þetta óvéfengjanlegan rétt sjávarjarða, enda er fyrrgreindur eignarréttur friðhelgur og stjórnarskrárvarinn. Það verður athyglisvert að fylgjast með því hvort eitthvað komi út úr þessum málum í framtíðinni.
Sjávarjörðum tilheyrir sjávarbotninn sem nær 115m út frá stórstraumsfjöruborði, en þetta eru kölluð netlög.

Sjávarbotninn litríkur og fullur af lífi. Stundum fylgist selur með.
Á nyrsta nefi Kirkjufells um vor. Mikið er um fugl í fjallinu.
Séð niður að Búðum. Gömlu bæjarrústirnar til vinstri og hlaðan til hægri.
Ægifagurt útsýni af toppi Kirkjufells. Helgrindur og Mýrarhyrna í bakgrunninn.