Páll Cecilson

Föðurlaus eins árs
Ég fæddist og ólst upp á bænum Búðum sem var undir Kirkjufellinu. Foreldrar mínir voru Cecil Sigurbjarnarson og Oddfríður Kristín Runólfsdóttir. Ég var yngstur fimm systkina, fimm árum yngri en sá næstyngsti, Guðbjartur. Þrjú elstu voru svo Kristín, Bæring og Soffanías. Öll settumst við svo að í Grundarfirði, nema Kristín í Stykkishólmi. Búskapurinn var ekki mikill á Búðum. Við vorum með 40-50 kindur, tvær kýr og hross og svo var líka nýtt það sem kom upp úr kálgarðinum.
Þetta var sjálfsþurftarbúskapur eins og algengt var á þessum tíma. Faðir minn var svo til sjós á veturna, bæði á bátum sem gerðir voru út hér heima og oft fór hann á vertíð til Reykjavíkur. Það var einmitt á einni vertíðinni þar sem báturinn sem hann var á, Papey RE, fórst í hafnarmynninu í Reykjavík og helmingurinn af áhöfninni fórst. Ég var bara eins árs þegar þetta gerðist, en móðir mín hélt samt áfram að búa með fimm börnin á Búðum. Fljótlega gátu svo þau elstu farið að hjálpa til með því að ráða sig í vinnu og leggja björg í bú. Elstu bræðurnir voru mikið við sjóinn og þegar Guðbjartur sá næstyngsti stálpaðist var það hann sem var heima við og sá um búskapinn að stórum hluta með mömmu.

Menntastofnunin á Kvíabryggju
Ekki voru þau mörg árin sem ég sat á skólabekk. Aðal menntastofnunin hér þegar ég var að alast upp var á Kvíbryggju. Þá var skólinn í hálfan mánuð í senn þar og síðan fór kennarinn og kenndi í hálfan mánuð inni í Grafarnesi eins og það hét þá þar sem kaupstaðurinn er núna. Mér fannst það reyndar ekki skemmtilegt nafn og þannig var það með fleiri, enda var nafninu breytt í Grundarfjörð þegar byggðin stækkaði. 
Ég var níu ára þegar ég byrjaði í skólanum. Ég gekk í skólann, enda ekki langt að fara frá Búðum á Kvíabryggju. Þarna á milli er þó vogur eða vík, sem ýmist er kallaður Bryggjuósinn eða Hálsvaðall. Á fjörunni var ekki nema 20-30 mínútur í skólann. Ég held það hafi verið í annað skiptið sem ég gekk í skólann sem stórstraumur var og hásjávað um morguninn þegar ég fór í skólann. Þetta þýddi að Vaðallinn var fullur og ég þurfti að taka á mig mikinn krók. Í þetta skiptið var ég hálfan annan tíma í skólann. Þetta var á laugardegi og Guðbjartur bróðir minn var í skólanum á sínum síðasta vetri. Við vorum svo samferða heim um kvöldið og þá hafði fólkið heima ekkert spurt af mínum ferðum frá því um morguninn.
Þegar ég fór í skólann fór ég alltaf hreinn og sæmilega klæddur, en þar sem börnin í sveitinni komu úr mismunandi aðstæðum og þrifnaði var víða áfátt, þá var talsvert um lús. Ég man að einu sinni sem oftar kom ég heim úr skólanum og var þá orðinn grálúsugur. Mamma færði mig strax úr fötunum og þvoði þau, hárið var síðan þvegið vandlega, borin í það steinolía og klút vafið utanum. Þetta var síðan haft svona yfir nóttina og drap það lúsina. Svo þegar ég kom næst úr skólanum, þá var það sama uppi á teningnum. Við sváfum tvö og tvö í rúmi í skólahúsinu. Ég svaf andfætis við dreng úr sveitinni og minnist ég þess, að oft þegar ég fór að sofa, þá heyrði ég einskonar smelli frá honum. Hann dundaði þá við að sprengja lýsnar með fingrunum. 
Mér hefur oft verið hugsað til þess hvað þetta eru nú breyttir tímar. Núna er krökkunum keyrt þó það sé bara af næsta bæ og smáspotti í skólann, en þarna var ég bara níu ára og reiknað með að maður bjargaði sér, en enginn heima vissi hvort ég var dauður eða lifandi.

Flutt út í Grundarfjörð. 

Skóli var lagður niður á Kvíabryggju þegar ég átti eftir tvo vetur í fullnaðarprófið, eins og það var kallað barnaskólaprófið sem tekið var fermingarvorið. Þá var eingöngu kennt  í Grundarfirði og fyrri veturinn var ég hjá móðurafa mínum Runólfi Jónatanssyni og seinni konu hans Sesselju Gísladóttur, en sonur þeirra var hálfbróðir mömmu, útgerðarmaðurinn Guðmundur Runólfsson. Það var eftir þennan vetur sem Kristín móðir mín brá búi á Búðum og flutti út í Grundarfjörð.

Ég átti því orðið heima hérna þegar ég var seinasta veturinn í skólanum. Einhvern veginn var tíðarandinn þannig að það þótti hálfgerður óþarfi að fara í skóla og ég hugsaði ekki einu sinni um það. Við vorum vön því að hjálpast að fjölskyldan og það veitti ekkert af því að fara að vinna fyrir sér. Ég byrjaði strax fermingarvorið að vinna í fiski og var viðloðandi það næstu árin. Þarna var nýlega búið að stofna Hraðfrystihús Grundarfjarðar og ég vann þar. Þegar við komum í Grundarfjörð voru þar bara örfá hús, fimm eða sex hús við Grundargötuna og það var aðalbyggðin í þorpinu. Þetta var því ekki eins og að flytja úr sveit í kaupstað. Þá var fólk með skepnur hérna og við tókum með okkur kýrnar frá Búðum. Mikið af byggingarefninu úr Búðabænum var notað í húsið okkar við Grundargötuna.


Á Bleik mínum sem ungur drengur.
Með eiginkonunni, Björk.
Á þorskveiðum í Grundarfirði 2017.
Við Búðahamar 2018.